Í landi andstæðna, elds og ísa, er staður þar sem sólin skín án afláts, líka á veturna,. Hún skín í björtum augum litlu barnanna okkar. Þau ljóma og skína jafnvel bjartar en systir okkar sólin sjálf.

Sælukot er einkarekinn leikskóli. Hann er fjögurra  deilda og getur vistað 72 börn. Yngsta deildirnar tvær eru ungbarnadeildir og heita Stjörnuþoka og Alheimur, miðdeildin heitir Himinn og elsta deildin heitir Vetrarbraut.

Leikskólinn tekur við við börnum frá 12 mánaða aldri.

Sælukot er staðsett í nágrenni við sjóinn, matjurtagarðana og flugvöllinn. Rétt norðan við skólann er gróðri vaxin klettahæð sem við köllum Holtið. Umhverfið er fjölbreytt og skemmtilegt. Á leiksvæðunum eru sandkassar, rólur, klifurkastali með rennibraut, fjórar sex barna kerrur sem börnin kalla strætó, stjörnu-vegasalt, útieldhús, vörubíll, hóll sem á er klifurbraut til að klifra upp og rennibraut til að renna sér niður, gróðurhús, blóm, tré, runnar, og fleiri hólar sem nýtast vel sem sleðabrekkur á veturna. Þarna eru ýmis leikföng, rekur og skóflur til að grafa með í sandkassanum, skjólur til að móta með sandkastala og hrífur til að róta með ásamt traktorsgröfum og skurðgröfu. Utan sandkassanna leika börnin sér með bolta, þríhjól, bíldekk, rugguhest og ýmislegt smádót sem þau nota í sífellt endurnýjaða og breytilega leiki sína. Í eftirmiðdaginn, þegar oftast eru flest börn á leikvöllunum, má sjá þau vera önnum kafin að elda mat í útieldhúsunum, í búðarleik undir klifurkastalanum, í tilfallandi leikjum á hólunum, að hjóla, renna sér í rennibrautum, róla sér og sparka eða henda á milli sín boltum. Þess utan er sífellt mikið að gerast í einkum stóra sandkassanum þar sem sjá má framtakssama persónuleika með skóflu í hönd grafa djúpt í sandinn á meðan aðrir eru að skreyta nýgerðan sandkastala með stráum og smásteinum. En dýrð heimsins er hverful og að lokinni útivist hverfa leikföng til síns heima í skápa og kistur, djúpar holur og sandkastalar jafnast út og önnur vegsummerki um óþrjótandi framkvæmda- og sköpunarkraft barnanna sömuleiðis. Með stækkuðu útileiksvæði verður væntanlega hægt koma til móts við þá sterku hvöt barna að vilja sjá eftir sig varanlega framkvæmd, en þangað til sæta þau skilmálum leiksins úti við, að spilin enda ætíð að lokum í spilastokknum uns þeim er spilað á ný. Þar fyrir er leikur barnanna ekki einfaldlega endurtekning á því sama vegna þess að hann þróast með þroska þeirra og menntun. Þannig má iðulega sjá í leik þeirra eldri spuna, sem varir frá degi til dags uns þau hafa líkt og fengið nægju sína um sinn af þessum tiltekna leik og snúa sér að öðrum.

Á leikvöllum Sælukots á slíkum eftirmiddegi kemur hlutverk kennaranna í lífi barnanna mjög skýrt fram. Yngstu börnin þarfnast vitaskuld margvíslegrar hjálpar þeirra og leiðsagnar og þau eldri þarfnast þess einkum að séu skapaðar kringum stæður fyrir að leikur þeirra þróist í að þau leiki sér saman. Þess vegna ber öll viðvera og athafnir kennaranna á leikvöllunum með sér siðferðilegan boðskap og leiðsögn um samhygð, samhjálp, réttlæti og vináttu.

Staðsetning leikskólans býður upp á gönguferðir niður að sjó eða upp í Holtið og vestur að ærslabelgnum, fyrir utan þá afarvinsælu leiðangra sem farnir eru með strætisvögnum borgarinnar á áhugaverða staði og viðburði. 

…………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………