Verklagsreglur Leikskólans Sælukots um tilkynningarskyldu til barnaverndar
Verklagsreglur þessar eru byggðar á vinnu menntamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Barnaverndar Reykjavíkur og Barnaverndarstofu. Þær varða börn í skólanum frá upphafi leikskóla til loka grunnskóla.
Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum:
“Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og
aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.
Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglum um þagnarskyldu viðkomandi starfsstéttar“ Barnaverndarlög nr. 8 0/2002 17. gr.
Með þessum verklagsreglum er gert ráð fyrir að starfsmenn leik-, grunn- og tónlistarskóla meti hvort ástand, líðan eða umönnun barns sé þannig háttað að tilkynna eigi um það til barnaverndarnefndar þar sem barnið býr.
Tilkynna skal um grun ekki aðeins staðfestar sannanir. Það er síðan barnaverndarnefnd og/eða starfsmenn hennar sem meta hvort grunur sé nægilega rökstuddur og taka ákvörðun um frekari könnun í framhaldi af því.
Hvað á að tilkynna ?
Helstu atriði sem tilkynnt er um varða grun eða vissu um vanrækslu, ofbeldi eða að barn stefni heilsu sinni og þroska í hættu. Hafa ber í huga að oft á tíðum er erfitt að tengja vanræksluna eða ofbeldið við eitthvert eitt atriði og ljóst er að ekki er unnt að nefna öll þau tilvik eða aðstæður þar sem barnaverndaryfirvöld eiga að koma að máli barns. Því þarf ætíð að meta hvert tilvik fyrir sig.
Barnaverndarmál eru oft gróflega flokkuð á eftirfarandi hátt: Vanræksla, andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og að barn stefni heilsu sinni og þroska í hættu með eigin hegðun. Mörkin milli hinna ólíku flokka eru stundum
óljós og ótal atriði er unnt að setja undir hvern flokk.
Listann hér að neðan má hafa til hliðsjónar til að hjálpa starfsmanni til að glöggva sig á líðan og ástandi barnsins. Mikilvægt er að undirstrika að listinn er ekki tæmandi.
Vanræksla:
Vanræksla getur verið bæði andleg og líkamleg og felur í sér að barn fái ekki þá umönnun og aðbúnað sem því er nauðsynlegt og sem hefur leitt til skaða á þroska þess eða er líklegt til þess. Vanræksla getur hafist strax á fósturstigi.
• Vanræksla getur falist í því að barn fái ekki líkamlegum þáttum fullnægt vegna sinnuleysis foreldra, ekki sé hugað að því að barn fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu o.fl.
• Vanrækslan getur varðað umsjón og eftirlit barnsins eins og að það sé skilið eftir eitt og eftirlitslaust án þess að hafa til þess aldur eða þroska eða að foreldrar eru ófærirum að sinni þörfum barnsins vegna eigin áfengis eða vímuefnaneyslu.
• Vanræksla getur varðað skólagöngu barns, t.d. að barn komi ítrekað í skólann. Án nauðsynlegra áhalda eða fatnaðar og ábendingar til foreldra um það bera engan árangur.
Andlegt ofbeldi:
Andlegt ofbeldi er oft erfitt að greina en það getur engu að síður haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir barnið. Það felur í sér að foreldrar eða aðrir umönnunaraðilar sýna barninu viðvarandi neikvætt viðhorf og neikvæðar tilfinningar sem eyðileggur eða hindrar þróun jákvæðrar ímyndar barnsins.
• Andlegt ofbeldi getur falist í viðhorfi eða hegðun sem segir að barnið sé einskis vert,engum þyki vænt um það eða enginn vilji sjá það.
• Andlegt ofbeldi getur falist í algjöru aðgerðarleysi eins og að sýna barninu engar tilfinningar.
• Andlegt ofbeldi getur falist í að verða vitni af ofbeldi á heimili.
Líkamlegt ofbeldi:
Líkamlegt ofbeldi er ofbeldi sem beint er að börnum og hefur leitt til að barnið skaðist eða er líklegt til þess. Barnið getur borið merki ofbeldisins eins og t.d. marbletti, brunasár eða beinbrot sem barnið og/eða foreldrar reyna að fela eða eiga erfitt með að útskýra eða ef útskýring verður ótrúverðug.
• Líkamlegt ofbeldi getur falist í því að barnið er slegið , hrist, því hent til, brennt eða bundið.
• Líkamlegt ofbeldi getur falist í því að barni er viljandi gefinn hættuleg lyf eða annað sem skaðað getur barnið.
Í leikskólanum Sælukoti er áhersla á gott siðferði, ofbeldi er ekki liðið.
Siðareglur Jóga eru mikilvægur þáttur í ný- húmanískri menntun. Siðareglurnar eru kenndar á öllum stigum í ný-húmanískum skólum. Gott siðferði er grundvöllur andlegrar þjálfunar og heilbrigðs samfélags. Hugurinn stjórnar gerðum manna. Hann er ekki fær um að greina rétt frá röngu, ef engar siðferðiskröfur eru gerðar. Slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið. Mikið af félagslegum og efnahagslegum erfiðleikum í heiminum í dag sýna skort á siðferði. Gott siðferði þarf að verða rauði þráðurinn í samskiptum manna.