[:en]

Leikskólinn Sælukot stendur nú steinsnar frá sjávarsíðunni, við hlið flugvallarins í Reykjavík, þar sem sjávarloftið og fjaran leika stóran þátt í daglegu lífi barnanna. Í garðinum hjá okkur má finna hóla þar sem hægt er að standa og fylgjast með flugvélunum taka á loft, skemmtilegar rólur, sandkassa, matjurtagarð, plöntur, blóm og tré sem jafnvel er hægt að príla aðeins í. Á stefnuskránni er svo að nýta stærsta hólinn betur, byggja þar rennibraut auk þess að setja pall efst og kaðla til að klifra upp á hólinn!

Upprunalega var Sælukot stofnað árið 1977, þá á Íslandi fyrsti Ný-Húmaníski leikskólinn í Evrópu. Hann var stofnaður af félögum úr jógahreyfingunni Ananda Marga á Íslandi og nefndur Sælukot. Nokkrum árum síðar kom Didi Ananda Sukriti til Íslands til þess að veita skólanum forstöðu. Didi, eða ”litla appelsínugula nunnan” eins og hún var oft kölluð tók mjög virkan þátt í samfélaginu í Reykjavík. Einn af núverandi kennurum skólans á bernskuminningar um Didi á ferðinni hér og þar um bæinn. Auk starfs Didi við skólann var hún einnig vel þekkt sem “appelsínugula nunnan sem gaf okkur ókeypis súpu”. Unglingarnir héngu gjarnan niðri í bæ og Didi hafði gaman af að færa þeim mat. Það voru hin jákvæðu samskipti hennar við félaga Ananda Marga, foreldra, kennara, samfélagið og áhrifafólk í samfélaginu sem gerðu henni kleyft að byggja skólanum það húsnæði sem hann hefur notið æ síðan. Margir lögðu fram ómælda sjálfboðavinnu við skólastarfið og við byggingu skólahússins. Þetta uppbyggingarstarf naut velvildar borgaryfirvalda og þáverandi borgarstjóri Davíð Oddson sýndi því sérstakan áhuga. Skólinn naut og velvildar þáverandi forseta Íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur, sakir góðra tengsla Didi og hennar. Frú Vigdís heimsótti skólann og leikskólabörnin höfðu um árabil að reglu að færa forsetanum blóm á afmælisdegi hennar og sungu fyrir hana.

Árið 1995 urðu yfirmannaskipti í skólanum. Didi Ananda Tapatii kom til Íslands og tók við skólanum, en “litla appelsínugula nunnan” fór til þjónustustarfa annars staðar í heiminum. Nýja Didi lagði mikla atorku í skólastarfið á starfsárum sínum.Sú nýsköpun í skólastarfinu og ekki síst sú ást og umhyggja sem hún sýndi börnum skólans, foreldrum þeirra og starfsfólki efldi skólann enn í starfsemi sinni og því áliti sem hann naut í samfélaginu. Vegna vinsælda skólans og hversu langur biðlistinn var, tók Didi þá ákvörðun að byggja við skólann. Árið 2001 var búið að bæta við skólann stórri leikstofu, nýju baðherbergi, tveimur minni herbergjum, sólstofu, íþróttaaðstöðu, nýju grindverki kringum lóðina, bílastæði, litlum garði og nýjum leiktækjum á leiksvæðið. Didi starfaði í rúm 10 ár á Íslandi. Fleiri Didiar hafa ljáð skólanum krafta sína, Didi Anandamayi, Didi Ananda Nirmala og Didi Ananda Raganuga. Núverandi Didi heitir Ananda Kaostubha. Orðið Didi þýðir systir.

Það er gaman að sjá fyrrum nemendur skólans sem nú eru orðnir fullorðnir, kennara og foreldra, hvernig P.R. Sarkars hefur snert og mótað líf þeirra. Fyrir ekki all löngu birtist frétt af börnum sem höfðu skipulagt tombólu til styrktar Barnaspítalanum. Þau tóku gömlu leikföngin sín og aðra hluti og seldu fyrir framan matvörubúð og gáfu allan ágóða til Barnaspítalans. Börnin voru 8-9 ára gömul og fyrrum nemendur í Sælukoti.

Móðir þriggja barna sem öll voru í Sælukoti sagði eftirfarandi sögu.
Eitt sinn var hún föst í umferðarhnút og mjög ergileg yfir því.
Þá byrjaði 3ja ára sonur hennar Sturla, að kenna henni hugleiðslu. „Lokaðu augunum mamma…. slakaðu á….. og segðu….. Baba Nam Kevalam.
Ást er allt í kringum mig.“

[:]